Nýr lífsgæðakjarni við Sléttuveg

Sléttan er heiti á kjarna við Sléttuveg þar sem er að finna hjúkrunarheimili Hrafnistu, leiguíbúðir Naustavarar og þjónustumiðstöð.

Verið velkomin í

HÚSIN Á SLÉTTUNNI

Öryggi – Vellíðan – Lífsgæði

Sléttan–lífsgæðakjarni fyrir eldra fólk

 

Með skipulagðri dagskrá og fjölbreyttri þjónustu verður til lífsgæðakjarni sem stuðlar að auknu öryggi, meiri vellíðan og bættum lífsgæðum eldra fólks.

Þjónustumiðstöð fyrir alla

Á Sléttunni er starfrækt þjónustumiðstöð, með opnu félags- og tómstundastarfi, sem er ein af hverfismiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Þjónustumiðstöðin er opin alla daga vikunnar og þar er í boði ýmis þjónusta, þar á meðal veitingasala, snyrtiþjónusta og heilsuefling.

Húsið er opið öllum og í boði er fjölbreytt dagskrá og viðburðir þar sem leitast er eftir því að sníða starfið að áhugasviði sem flestra. Sérstaklega er reynt að styðja við sjálfsprottna áhugahópa og veita þeim aðstöðu. Í þjónustumiðstöðinni er boðið upp á fræðslu, skemmtanir og uppákomur af ýmsu tagi.

Leiguíbúðir 60+

Leiguíbúðir Naustavarar eru afar góður kostur fyrir 60 ára og eldri. Þar býðst fólki að búa í sjálfstæðri búsetu í sérhönnuðum 60 til 90 m² íbúðum sem eru hluti af lífsgæðakjarnanum og sambyggðar við þjónustumiðstöðina. Því er stutt í þjónustu og skipulagt félags- og tómstundastarf.

Í leiguíbúðum Naustavarar er hátt þjónustustig þar sem í boði er öryggiskerfi, húsvarsla og þjónustusími sem er opinn allan sólarhringinn. Auk þess geta íbúar keypt ýmsa viðbótarþjónustu t.d. öryggishnapp, aðstoð iðnaðarmanna, matarþjónustu, aðgang að heilsurækt og fleira.

Hjúkrunarheimili

Búseta á hjúkrunarheimili Hrafnistu býðst þeim sem hafa fengið færni- og heilsumat og verið boðið að þiggja búsetu á hjúkrunarheimili.

Heimilisfólk Hrafnistu fær fulla umönnun og aðstoð við athafnir daglegs lífs í samræmi við kröfulýsingu heilbrigðisráðuneytisins. Auk þess býðst heimilisfólki, og gestum þeirra, að nýta þjónustu og viðburði sem í boði eru innan lífsgæðakjarnans á Sléttunni.

Á hjúkrunarheimilinu eru 9 heimilislegar einingar fyrir 11 íbúa hver. Þar býr hver og einn í eigin íbúð með baðherbergi ásamt sameiginlegri borðstofu, eldhúsi og setustofu.